Stjórnarher Eþíópíu hefur á undanförnum vikum snúið vörn í sókn í baráttu sinni gegn uppreisnarher Þjóðfrelsishreyfingar Tígra (TPLF), sem hefur átt í stríði gegn ríkisstjórninni frá því í nóvember í fyrra.

Þjóðfrelsishreyfing Tígra ræður yfir Tígraí-héraði í norðurhluta Eþíópíu og réð áður yfir Eþíópíu allri frá 1991 til 2018. Herafla ríkisstjórnar Abiy Ahmed forsætisráðherra tókst að ná stjórn á Tígraí-héraði í lok nóvember 2020 en Tígrar endurheimtu yfirráð yfir héraðinu í júní næsta ár og hófu gagnsókn inn í Amhara-hérað.

Abiy lýsti yfir neyðarástandi í síðasta mánuði vegna hraðrar sóknar TPLF inn í Amhara-hérað, en her þeirra hafði þá hertekið mikilvægar borgir á borð við Dessie, Kombolcha, Gashena og Lalibela. Vegna þessara hernaðarsigra uppreisnarmanna var óttast að þeir hefðu nú sóknarfæri að höfuðborginni Addis Ababa, sem er í miðjum Amhara-héraðs.

Ríkisstjórnin tilkynnti í byrjun vikunnar að stjórnarherinn hefði endurheimt Dessie og Kombolcha. Í gær tilkynnti upplýsingaráðherra Eþíópíu, Selamawit Kassa, að fleiri bæir á borð við Arjo, Fokissa og Boren væru komnir aftur í hendur stjórnarinnar.

„Undanfarna viku hafa TPLF liðar gefist upp þúsundum saman, talað var um nærri 20.000 í allt áður en Dessie féll, mér þætti ekki ólíklegt að svipaður fjöldi hafi gefist upp þar einnig,“ segir Brynjólfur Þorvarðsson, íslenskur forritari sem búsettur er í Eþíópíu, um gang mála. „Mikill fjöldi TPLF liða er á flótta norðureftir en kemst ekki mikið lengra en Woldiya, bærinn Kobo er ef ekki á valdi Fano [þjóðernishreyfingar Amhara sem berst gegn TPLF] þá umkringdur, og A2 þjóðvegurinn er stíflaður milli þessara tveggja bæja af hundruðum yfirgefinna vöruflutningabíla sem voru á leið heim til Mekelle með þýfi frá Dessie og svæðinu þar í kring.“

Brynjólfur segist hneykslaður á því að ríkisstjórnir Vesturlanda hafi ekki stutt stjórn Eþíópíu með virkum hætti í þessu rúmlega ársgamla stríði. „Þetta stríð hefði aldrei orðið svona langt né dreift svona úr sér ef ríkisstjórn BNA hefði ekki ákveðið að vera „hlutlaus“ og ef fjölmiðlar hefðu ekki ákveðið að þaga algjörlega um alla vel staðfestu stríðsglæpi TPLF en hamra sí og æ á meintum stríðsglæpum Eþíópíustjórnar. Morðóðir leiðtogar TPLF hafa fengið frelsi til athafna í skjóli þagnar og valhneykslunar – í boði vestrænna lýðræðisríkja!“